Rabarbari ber fræðiheitið Rheum rhabarbarum eða Rheum x hybridum. Hann er af ætthvíslinni Rheum og af súruætt en talið er að ætthvíslir rabarbarans séu um 60 talsins. Í grasagarðinum í Laugardal eru um 16 yrki af rabarbara til varðveislu fyrir Norræna Genabankann. Sjö þeirra eru íslensk yrki. Rabarbari hefur verið ræktaður hérlendis í um 130 ár en upphaflega kemur hann frá Asíu. Nánartiltekið suðurhluta Síberíu. Talið er að rabarbarinn hafi komið frá Síberíu til Englands um 1573 og borist síðar til Frakklands. Um 1700 nemur rabarbarinn land í Danmörku, 1840 í Noregi og 1883 á Íslandi. Hægt er að nýta alla hluta rabarbarans. Rót hans hefur verið notuð sem lækningajurt. En þurrkuð rabarbararót þótti á árum áður fyrirtaks hægðarlyf til úthreinsunnar. Hvítan eða neðsti hluti stilksins var gjarnan soðinn niður á haustinn hérlendis og neytt um jólahátíðina með rjóma. Stilkurinn er alla jafna vinsælasti hluti rabarbarans. Úr honum má vinna sultur, grauta, saft og margt fleira. Í Ameríku er rabarbarinn þekktur sem “Pie Plant” eða “böku plantan”. Að lokum eru það blöð rabarbarans. Þau eru rík af oxalsýru og séu þau nýtt til átu geta þau valdir eitrunaráhrifum en gamalt húsráð er að sjóða blöðin og nota soðið til að þrífa potta og pönnur.
Heimildir: Tímarit.is, sótt 01.06.2012 af http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4979955 Fréttablaðið, sótt 01.06.2012 af http://epaper.visir.is/media/201107020000/pdf_online/1_18.pdf Rhubarb culture eftir Fred S. Thompson The new rhubarb culture eftir J. E. Morse Winter rhubarb: culture and marketing eftir Reginald Bland